Körfubolti

Grát­legt tap Jóns Axels

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jón Axel náði sér ekki á strik í tapi dagsins.
Jón Axel náði sér ekki á strik í tapi dagsins. vísir / hulda margrét

Jón Axel Guðmundsson og félagar í San Pablo Burgos eru í strembinni stöðu í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta. Þeir töpuðu heimaleik fyrir sterku liði Joventut Badalona með grátlegum hætti í dag.

San Pablo hefur ekki riðið feitum hesti á leiktíðinni og hafði aðeins unnið einn leik af fyrstu tólf þegar liðið þó vann tvo leiki í röð í síðustu tveimur umferðum.

Vonast var eftir þriðja sigrinum í röð þegar Badalona kom í heimsókn í dag en það gekk ekki eftir.

Leikur liðanna var jafn en Badalona með yfirhöndina undir lokin þegar úr urðu æsispennandi lokasekúndur sem tók heillangan tíma að klára. San Pablo minnkaði muninn í 97-95 þegar sex sekúndur voru eftir og gestinir á vítalínuna í kjölfarið.

Aðeins eitt víti fór niður og möguleiki fyrir San Pablo að jafna með lokaskotinu en það geigaði. Lokatölur 98-95 Badalona í vil.

Jón Axel komst ekki á blað á þeim rúmu 13 mínútum sem hann spilaði í dag. Hann reyndi tvö skot sem hvorugt fór niður en hann gaf þó þrjár stoðsendingar.

San Pablo er í 17. sæti deildarinnar, efra fallsætinu af tveimur, með sex stig eftir 15 leiki, fjórum stigum á undan botnliði Granada sem er með tvö stig.

MoraBanc Andorra er næst fyrir ofan Burgos með átta stig en hefur spilað einum leik færra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×