Erlent

Hafa lokað yfir hálfri milljón sam­félags­miðla­að­ganga

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Síðan í desember hafa samfélagsmiðlar verið bannaðir börnum yngri en 16 ára í Ástralíu.
Síðan í desember hafa samfélagsmiðlar verið bannaðir börnum yngri en 16 ára í Ástralíu. Getty/Matt Cardy

Samfélagsmiðlarisinn Meta, sem á meðal annars Facebook og Instagram, hefur á fyrstu dögunum eftir gildistöku nýrra laga í Ástralíu látið loka um 550 þúsund aðgöngum notenda sem eru yngri en 16 ára. Í desember riðu Ástralar fyrstir þjóða á vaðið og settu lög sem fela í sér bann við samfélagsmiðlanotkun barna. 

Önnur ríki hafa fylgst grannt með gangi mála í Ástralíu síðan, en nokkur önnur ríki hafa til skoðunar að setja á sambærilegar reglur, meðal annars á Norðurlöndum. Þá benda skoðanakannanir til þess að nokkur víðtækur stuðningur væri við slíkt bann hér á landi.

Stjórnvöld og stuðningsmenn málsins segja að lagasetningin hafi verið nauðsynlegt skref til að vernda börn fyrir skaðlegu efni og algóritma á samfélagsmiðlum. Tæknirisar á borð við Meta hafa sagt að gera þurfi meira til að tryggja öryggi barna á netinu, hins vegar hefur fyrirtækið kallað eftir annars konar aðgerðum.

Í umfjöllun BBC um málið kemur fram að fyrstu vikuna eftir að bannið tók gildi hafi Meta lokað ríflega 330 þúsund Instagram-reikningum, yfir 173 þúsund Facebook-aðgöngum og hátt í 40 þúsund Threads-aðgöngum.

Fyrirtækið hefur skorað á áströlsk stjórnvöld að grípa heldur til annars konar aðgerða en banns, í samráði við tækniiðnaðinn, auk þess sem Meta hefur gert ýmsar athugasemdir við framkvæmd laganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×