Neytendur

Ætluðu að nýta greidd sæti en fengu ekki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Flugvél Play á Keflavíkurflugvelli á meðan flugfélagsins naut við. Það var tekið til gjaldþrotaskipta í haust.
Flugvél Play á Keflavíkurflugvelli á meðan flugfélagsins naut við. Það var tekið til gjaldþrotaskipta í haust. Vísir/Egill

Innviðaráðuneytið hefur staðfest ákvörðun Samgöngustofu um að vísa frá kvörtun fjögurra farþega sem ýmist var vísað úr eða yfirgáfu flugvél Play í Danmörku haustið 2024. Farþegarnir kröfðust þess að brottvísunin yrði metin ólögmæt og að þeim yrðu dæmdar skaða- og miskabætur.

Einn farþeganna hafði keypt sex flugsæti fyrir fjölskylduna en tveir úr hópnum forfölluðust. Hinir fjórir hugðust nýta aukasætin í fluginu og voru ósáttir þegar flugáhöfnin ætlaði að ráðstafa sætunum til annarra farþega. Upp kom ágreiningur sem endaði með því að einum farþega var vísað frá borði. Í kjölfarið yfirgáfu hin þrjú flugvélina.

Farþegarnir leituðu til Samgöngustofu og kröfðust úrskurðar um ólögmæta brottvísun og bótarétt. Stofnunin vísaði málinu hins vegar frá á þeim grundvelli að það félli ekki undir valdssvið hennar, þar sem flugið fór frá Danmörku en ekki frá íslensku yfirráðasvæði. Sú ákvörðun var kærð til innviðaráðuneytisins.

Í úrskurði ráðuneytisins, sem kveðinn var upp í síðustu viku, er fallist á sjónarmið Samgöngustofu. Þar kemur fram að samkvæmt loftferðalögum og reglugerð Evrópusambandsins um réttindi flugfarþega sé almenna reglan sú að kvartanir skuli teknar til meðferðar í því ríki sem flug leggur upp frá. Þar sem brottvísunin átti sér stað í Danmörku hafi Samgöngustofa ekki haft vald til að úrskurða í málinu.

Ráðuneytið gagnrýnir þó að Samgöngustofa hafi ekki leiðbeint farþegunum strax um að leita réttar síns hjá dönskum stjórnvöldum, eins og henni bar samkvæmt stjórnsýslulögum. Þar sem þær leiðbeiningar hafi síðar verið veittar hafi það þó ekki áhrif á niðurstöðuna.

Play varð gjaldþrota síðastliðið haust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×