Fótbolti

Leita að þeim sem truflaði Mo Salah með græna ljósinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlutirnir hafa ekki gengið upp hjá Mohamed Salah með egypska landsliðinu sem er enn að bíða eftir sínum fyrsta titli með hann innanborðs.
Hlutirnir hafa ekki gengið upp hjá Mohamed Salah með egypska landsliðinu sem er enn að bíða eftir sínum fyrsta titli með hann innanborðs. Getty/Visionhaus

Aðalflugfélag Senegals vill hjálpa senegalska fótboltalandsliðinu að vinna Egyptaland í dag og tryggja sér sæti í úrslitaleik Afríkukeppninnar en fer mjög sérstaka og jafnframt smásmugulega leið að því.

Egyptaland hefur unnið alla leiki sína í keppninni sem Mohamed Salah hefur spilað og hann er með fjögur mörk og eina stoðsendingu í þessum fjórum leikjum sínum á mótinu. Salah er fyrirliði og algjör lykilmaður egypska landsliðsins.

Air Senegal tilkynnti á samfélagsmiðlum að þeir væru að leita að stuðningsmanninum sem mundaði græna leysisgeislann í undankeppnisleik Egyptalands og Senegal fyrir HM í Katar.

Andlit Salah var óskýrt vegna skærgræns ljóss þegar hann bjó sig undir að taka vítaspyrnu sína, sem hann skaut yfir markið. Senegal vann vítaspyrnukeppnina í Dakar í mars 2022 þar sem Sadio Mané, fyrrum og þáverandi liðsfélagi Salah hjá Liverpool, skoraði úr úrslitaspyrnunni og tryggði Senegölum sæti á HM í Katar 2022.

Flugfélagið segist ætla að borga flug og gistingu fyrir stuðningsmanninn til Marokkó fyrir undanúrslitaleikinn gegn liði Mo Salah.

Alþjóðaknattspyrnusambandið sektaði seinna knattspyrnusamband Senegal um 180.000 dollara vegna óláta áhorfenda í umspilsleik liðsins fyrir HM gegn Egyptalandi, þar á meðal fyrir að beina leysibendum að kantmanninum Mohamed Salah í vítaspyrnukeppninni.

Egyptar hafa ekki unnið Afríkukeppnina síðan Salah fór að spila með landsliðinu árið 2011 en hann vantar nú aðeins tvö mörk til að verða markahæsti leikmaðurinn í sögu egypska landsliðsins. Áður en Salah spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir fimmtán árum þá höfðu Egyptar unnið þrjú Afríkumót í röð eða 2006, 2008 og 2010. Liðið tapaði úrslitaleiknum 2017 og 2021 en datt úr úr sextán liða úrslitunum fyrir tveimur árum.

Senegal vann Afríkukeppnina 2021 en það var fyrsti og eini titill Senegal í sögu mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×