Innlent

Eftir­maður Guð­brands í sjokki en klár í slaginn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sandra er klár í þingmennsku eftir tíðindi morgunsins.
Sandra er klár í þingmennsku eftir tíðindi morgunsins.

Sandra Sigurðardóttir varaþingmaður Viðreisnar sem nú tekur við þingsæti Guðbrands Einarssonar í Suðurkjördæmi segist vera í sjokki vegna málsins. Ákvörðunin hjá Guðbrandi um að segja af sér vegna tilraunar til vændiskaupa sé hinsvegar hárrétt og segist Sandra vera klár í slaginn á Alþingi.

Líkt og komið hefur fram hefur Guðbrandur sagt af sér þingmennsku vegna tilraunar til að kaupa vændi árið 2012. Hann var yfirheyrður af lögreglu á sínum tíma en segist ekki hafa verið ákærður. Hann tók ákvörðun um afsögn þegar Vísir ætlaði að fjalla um málið, sagðist hafa gert stór mistök sem hann harmi mjög.

Ekki tekið ákvörðun um að segja skilið við bæjarstjórn

Sandra tók við sem framkvæmdastjóri þingflokks Viðreisnar fyrir tveimur mánuðum síðan. Hún er jafnframt forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar og varaþingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi þar til nú og Vísir leitaði viðbragða hennar.

„Við erum bara ennþá í sjokki yfir þessu, en þetta er auðvitað bara hárrétt ákvörðun hjá Bubba,“ segir Sandra sem viðurkennir að þetta séu skrítnar aðstæður. Hún hlakki hinsvegar til að láta til sín taka fyrir Suðurkjördæmi og segist þakkát og stolt að fá tækifærið til að starfa við þingmennsku. Sandra segir að hún brenni helst fyrir menntamálum og málefnum barna.

„Þetta er spennandi en skrítið. Ég tek við sem framkvæmdastjóri þingflokks í nóvember, er nýbúin að koma mér fyrir og komast inn í þetta. En það hefur gefið mér enn betri innsýn í starfið og ég held ég sé bara klár í slaginn til að takast á við verkefnin.“

Muntu hætta í bæjarstjórn til að sinna þingmennsku?

„Ég var á fundi til tíu í gærkvöldi og er bara ekki búin að ná að ræða þetta við mitt fólk, samstarfsfólk og fjölskyldu. Helgin mun fara í það en það er svo sem stutt eftir fram að kosningum. Ég þarf bara að taka stöðuna, hvort maður klári þá næstu fjóra fundi sem eru eftir. Ég þarf fyrst og fremst að ræða við mitt fólk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×