Íslenski boltinn

Sigurður Bjartur á leið til Spánar?

Sindri Sverrisson skrifar
Sigurður Bjartur Hallsson var sjóðheitur á síðustu leiktíð.
Sigurður Bjartur Hallsson var sjóðheitur á síðustu leiktíð. Sýn Sport

FH hefur samþykkt kauptilboð í framherjann Sigurð Bjart Hallsson sem þar með virðist á förum í spænsku C-deildina í fótbolta.

Það er félagið AD Mérida sem falast eftir kröftum Sigurðar. Miðillinn 433.is greindi fyrst frá þessu og sagði það nú undir leikmanninum komið hvort að hann myndi samþykkja að ganga í raðir spænska félagsins.

Mérida er í 11. sæti af 20 liðum í spænsku C-deildinni eftir 20 umferðir af 38 en á fína möguleika á að komast í umspil um sæti í B-deild.

Ljóst er að Sigurður Bjartur kæmi til með að skilja eftir stórt skarð fyrir skildi í Krikanum en hann skoraði sextán mörk í Bestu deildinni á síðustu leiktíð, í 26 leikjum, og þar af sex mörk í fimm leikjum eftir skiptingu deildarinnar.

Hann er uppalinn hjá Grindavík en gekk svo í raðir KR fyrir tímabilið 2022, eftir 17 mörk í Lengjudeildinni sumarið áður, og hefur svo spilað með FH síðustu tvö tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×