Innlent

Laugarnestangi frið­lýstur sem menningar­lands­lag

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lauganestanginn sem nú hefur verið friðlýstur.
Lauganestanginn sem nú hefur verið friðlýstur. Reykjavíkurborg

Menningar- og búsetulandslag Laugarnestanga í Reykjavík hefur verið friðlýst á grundvelli laga um menningarminjar. Friðlýsingunni var fagnað með ráðherra og borgarstjóra í dag.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, staðfesti friðlýsinguna en markmiðið með henni er að sameina merkar minjar á Laugarnesi sem minjaheild, en minjarnar sýna þróun svæðisins allt frá landnámi til dagsins í dag. Eldri friðlýsingar náðu aðeins til hluta þeirra fjölmörgu fornleifa sem eru á svæðinu.

Friðlýsingin nær til búsetu- og menningarlandslags, þ.e. ásýndar staðarins og búsetumynsturs, búsetuminja, bæjarhóls, kirkjugarðs, beðasléttna, vara, annarra fornleifa og herminja.

Hér má sjá friðlýstu svæðin.Reykjavíkurborg
Hér má sjá friðlýstu svæðin.Reykjavíkurborg

„Með friðlýsingunni eru stigin mikilvæg skref í átt að vernd menningarminja sem fyrir eru á svæðinu og þeirra sem seinna meir kunna að koma í ljós. Svæðið er einnig mikilvægt útivistarsvæði og þar er að finna einu óröskuðu fjöruna sem eftir er á norðurströnd Reykjavíkur,“ segir í tilkynningu Reykjavíkurborgar.

Friðlýsingin var gerð að tillögu Minjastofnunar Íslands sem vann hana í samráði við Reykjavíkurborg, eiganda landsins.

Í rökstuðningi fyrir friðlýsingunni kemur fram að á Laugarnestanga megi sjá áhrif mannsins á umhverfi sitt allt frá upphafi byggðar í Reykjavík fram á okkar daga. Menningarlandslag Laugarnestanga er mikilvægur hluti af sögu Reykjavíkur og eitt fárra svæða innan marka þéttbýlis Reykjavíkurborgar þar sem hægt er að upplifa svo heildstætt menningarlandslag. Á yfirborði eru sýnilegar minjar frá ólíkum tímabilum í sögu Íslands. En þar má m.a. sjá leifar kirkjugarðs, bæjarhóls og beðasléttna auk minja um hjáleigubúskap og sjósókn í Norður- og Suðurkoti. Einnig eru þar leifar embættisbústaðar biskups, holdsveikraspítala og stríðsminja.

Frá vinstri: Rúnar Leifsson, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Þuríður Sigurðardóttir f.h. Laugarnesvina, Birgitta Spur fh. Listasafns Sigurjón Ólafssonar, og Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur.Reykjavíkurborg

Friðlýsingunni fylgja ýmsar undanþágur, t.a.m. eru öll hús innan svæðisins, lausafé á lóðum, sem og öll veitumannvirki neðanjarðar undanskilin skilmálum friðlýsingarinnar. Ekki er gert ráð fyrir 100 metra friðhelguðu svæði umhverfis hið friðlýsta svæði og jafnframt fellur úr gildi núgildandi 100 metra friðhelgun bæjarhóls Laugarness og hins gamla kirkjugarðs.

„Með friðlýsingunni klárum við dæmið. Við tryggjum vernd menningarminja og búsetulandslags Laugarnestanga til framtíðar. Svona sýnum við að í nútímaborg er hægt að sameina vernd, aðgengi og lífsgæði. Sýnum að náttúru- og menningarvernd snýst ekki um að haka í box – heldur um að taka ábyrgð, sýna virðingu og varðveita sameiginleg gæði til framtíðar. Með því að friðlýsa þetta svæði sýnum við í verki virðingu fyrir sögunni okkar, fólkinu sem hér lifði og starfaði, þetta er menningararfur sem okkur þykir vænt um, og sem við sem stýrum landi og borg erum einhuga um að varðveita,“ segir Jóhann Páll Jóhansson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Frá athöfninni í dag.Reykjavíkurborg

„Og svo það sé skýrt: með friðun erum við ekki einhvern veginn að læsa svæðinu. Þvert á móti. Friðlýsing er einmitt stjórntæki sem stuðlar að því að komandi kynslóðir hafi samskonar aðgengi að menningarminjum og við, og að reynt sé eftir föngum að varðveita þær í eigin umhverfi og viðhalda ástandi þeirra.“

Rúnar Leifsson, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, fagnar tíðindunum. 

„Laugarnesið er þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga trausta vini. Íbúar og aðrir velunnarar þessa svæðis hafa beitt sér fyrir verndun þess um árabil og hvatt mjög til friðlýsingar þeirrar sem raungerist í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×