Fótbolti

Unnu leikinn án þess að skjóta á markið

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Strákarnir úr Skírisskógi lentu í vandræðum í gær og Elliot Anderson fékk rautt spjald.
Strákarnir úr Skírisskógi lentu í vandræðum í gær og Elliot Anderson fékk rautt spjald. by Diogo Cardoso/Getty Images

Nottingham Forest upplifði algjöra martröð gegn Braga í Evrópudeildinni í gærkvöldi.

Forest-menn voru betri aðilinn en tókst ekki að brjóta ísinn í fyrri hálfleik. Í upphafi seinni hálfleiks fengu þeir tækifæri til þess, þegar Morgan Gibbs-White steig á vítapunktinn en spyrnan frá honum var varin.

Braga brunaði þá í sókn, sem endaði með óheppilegu sjálfsmarki hjá Ryan Yates, aðeins 55 sekúndum eftir vítaklúðrið. Þessi óheppilegu röð atvika má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. 

Klippa: Martaðarmínúta Nottingham Forest

Staðan var þá skyndilega orðin 1-0 en ekki 0-1 á aðeins 55 sekúndum. 1-0 fyrir Braga urðu svo lokatölur leiksins, þrátt fyrir fimm breytingar á liði Nottingham Forest og enn fleiri tilraunir á markið.

Braga tókst þannig að vinna leikinn án þess að skjóta á markið og er aðeins annað liðið í sögu Evrópudeildarinnar sem afrekar það. Braga-menn skutu reyndar í stöngina í stöðunni 1-0, en það telur ekki sem skot á markið á tölfræðiblaðinu.

Til að fullkomna martröðina nældi Elliot Anderson sér í rautt spjald í uppbótartíma fyrir rifrildi við dómara.

Anderson mun því missa af næsta leik Nottingham Forest í Evrópudeildinni gegn Ferencvaros. Forest er í 16. sæti deildarinnar og er öruggt með umspilssæti, en á lítinn séns á að komast beint áfram í sextán liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×