Lífið

Bríet og Pálmi takast á fyrir dóm­stólum

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Bríet og Pálmi unnu saman í fjölmörg ár áður en það flosnaði upp úr samstarfinu.
Bríet og Pálmi unnu saman í fjölmörg ár áður en það flosnaði upp úr samstarfinu. Samsett

Tónlistarfólkið Bríet Elfar og Pálmi Ragnar Ásgeirsson hafa stefnt hvort öðru fyrir dómstólum. Heimildir Vísis herma að málaferlin snúist um höfundarrétt.

Bríet og Pálmi, lagahöfundur og pródúsent, hófu samstarf sitt árið 2018 þegar Bríet gaf út sína fyrstu smáskífu, 22.03.99. Á þeim fjórum árum sem Bríet og Pálmi unnu saman að tónlist gáfu þau út átján lög sem þau sömdu í sameiningu.

Þar á meðal eru flestöll lögin á plötunni Kveðja, Bríet og vinsælasta lag hennar, Esjan. Samstarf þeirra hélt áfram til ársins 2022 en síðasta lagið sem þau eru skráð bæði fyrir er lagið Flugdreki. Lögin sem þau sömdu saman eru öll skráð af tónlistarútgáfunni Alda Music á Spotify en nýrri lög Bríetar af henni sjálfri.

Heimildir Vísis herma að þau hafi nú stefnt hvort öðru fyrir dómstólum. Málið hefur verið tekið fyrir einu sinni af dómstólnum og er önnur fyrirtaka á dagskrá í febrúar. Um er að ræða ósætti sem varðar höfundarrétt áðurnefndra laga.

Bæði tekið þátt í Áramótaskaupinu

Bríet er ein frægasta söngkona landsins og gaf út sitt fyrsta lag árið 2018. Hún steig hratt upp í stjörnuhiminn og vakti mikla athygli fyrir lagið Esjan og plötuna Kveðja, Bríet þar sem hún syngur um ástarsorg. Bríet var dómari í söngvakeppninni Idol og söng lokalag Áramótaskaupsins árið 2024.

Pálmi Ragnar hefur unnið að tónlist frá því hann var í menntaskóla en gerði það að fullu starfi árið 2016. Hann var einn þriggja meðlima í upptökuteyminu StopWaitGo auk bróður síns Ásgeiri Orra Ásgeirssyni og Sæþóri Kristjánssyni. 

Þríeykið samdi til að mynda lagið Unbroken sem María Ólafsdóttir söng fyrir hönd Íslands í Eurovision árið 2015. Pálmi og Ásgeir eru einnig meðal höfunda að lokalagi Áramótaskaupsins árið 2025.

Pálmi Ragnar vildi ekki tjá sig um málið. Fréttastofa hefur ekki náð í Bríeti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.