Innlent

Gríðar­leg von­brigði að reyndri konu sé ekki treyst

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri laut í lægra haldi gegn Pétri Marteinssyni í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri laut í lægra haldi gegn Pétri Marteinssyni í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Vísir/Lýður Valberg

„Þetta eru bara gríðarleg vonbrigði, vissulega. En líka þakklæti fyrir mikinn stuðning. Í rauninni er ég stolt af mínum baráttumálum og minni vinnu. Þetta er tvíbent, en auðvitað eru vonbrigði að vera ekki treyst fyrir fyrsta sætinu. Ég hélt að Samfylkingin væri komin á þann stað.“

Þetta sagði Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri við fréttamann eftir að úrslit prófkjörs Samfylkingarinnar í Reykjavík voru ljós. Pétur Marteinsson vann oddvitaslaginn með 3063 atkvæðum en Heiða hlaut 1668 atkvæði, 1424 í fyrsta sætið en 244 í annað sætið.

Aðspurð hvað hún meinti með að hún héldi að flokkurinn væri kominn á þann stað sagði Heiða eftirfarandi. 

„Að treysta reyndri konu til að leiða listann í vor. Ég hélt að við værum þar en það er greinilega ekki,“ segir Heiða Björg sem kveðst þó stolt af sínum verkum og sínum baráttumálum, sem hún muni halda áfram að vinna að finna farveg. 

Hún segir ótímabært að segja til um hvort hún ætli að sætta sig við annað sæti eða draga sig af listanum. 

„Þetta verður ágætislisti. Fólk er greinilega búið að velja sér lista og þannig er þetta í lýðræðislegum flokki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×