Innlent

For­eldrar loki á sam­skipti barna við ömmu og afa

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sigrún Júlíusdóttir er doktor í fjölskyldutengslum og prófessor emerita í félagsráðgjöf.
Sigrún Júlíusdóttir er doktor í fjölskyldutengslum og prófessor emerita í félagsráðgjöf. Vísir/Lýður Valberg

Doktor í fjölskyldutengslum segir fólk í auknum mæli útskúfa fjölskyldumeðlimum vegna deilna. Oftast sé um að ræða uppkomin börn sem útiloka foreldra sína frá barnabörnum. Erfitt er að leysa úr deilunum.

Internetið hefur logað síðustu daga eftir að Brooklyn Beckham, sonur Davids og Victoríu Beckham, sakaði foreldra sína um lygar og pretti til þess að viðhalda fullkominni ímynd fjölskyldunnar. Hann hefði engan áhuga á að sættast við fjölskyldu sína. 

Meðal þess sem Brooklyn nefndi var að móðir hans hafi eyðilagt fyrsta dans hans og eiginkonu sinnar, Nicola Peltz, í brúðkaupi þeirra. Listamaður sem kom þar fram hafi kallað Brooklyn upp á svið til að dansa fyrsta dansinn og svo beðið „fallegustu konuna í herberginu“ til að mæta. Því næst steig Victoría sjálf upp en ekki eiginkonan.

Fjölskyldan hafi að lokum lokað á sig og er Brooklyn ekki í neinum samskiptum við foreldra sína.

Oft þekktir einstaklingar

Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emerita í félagsráðgjöf, segir dæmi á Íslandi þar sem fólk lokar á aðra fjölskyldumeðlimi.

„Þetta er fyrst og fremst í vestrænni menningu. Þetta er hjá fólki sem er með tiltölulega góða menntun, í efri millistétt oft og gjarnan þekktir einstaklingar,“ segir Sigrún. 

Amma og afi fái ekki að hitta barnabörnin

Gremjan stafi oft af því að uppkomin börn telji foreldra sína ekki hafa sinnt sér í æsku.

„Samsetningin er fullorðin börn, miðaldra foreldrar og stundum afar og ömmur. Mjög oft bitnar þetta á tengslum ömmu og afa og barnanna. Það er að segja, það er ekki bara lokað á tengslin við foreldrana, heldur líka á aðgengi ömmu og afa að barna- og barnabarnabörnum,“ segir Sigrún. 

Hugsa um börnin

Mál sem þessi séu afar viðkvæm og erfitt að leysa þau.

„Ef fólk er sæmilega hugsandi og tilbúið að fara aðeins undir yfirborðið, þá sér það bæði sinn eigin hag og hag lítilla barna sem geta þarna komið við sögu,“ segir Sigrún. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×