Íslenski boltinn

Varafyrirliða FH sagt að finna sér nýtt fé­lag

Sindri Sverrisson skrifar
Böðvar Böðvarsson hefur verið í stóru hlutverki hjá FH en virðist ekki eiga sér framtíð hjá félaginu.
Böðvar Böðvarsson hefur verið í stóru hlutverki hjá FH en virðist ekki eiga sér framtíð hjá félaginu. vísir

Fótboltamaðurinn Böðvar Böðvarsson, sem var varafyrirliði FH, er ekki inni í áætlunum nýs þjálfara liðsins, Jóhannesar Karls Guðjónssonar, og má finna sér nýtt félag.

Þetta staðfesti Böðvar sjálfur við Fótbolta.net í gær eftir að Kristján Óli Sigurðsson greindi frá tíðindunum á X.

Böðvar, sem er þrítugur, er uppalinn FH-ingur og hefur einungis spilað með FH hér á landi en einnig spilað erlendis, í Póllandi og Svíþjóð. 

Hann sneri heim úr atvinnumennsku fyrir tímabilið 2024 og er með samning við FH sem gildir út árið 2027. Sá samningur er enn í gildi en Böðvari er eins og fyrr segir frjálst að finna sér nýtt félag og ljóst að það fer illa í suma af stuðningsmönnum FH.

Böðvar, sem er vinstri bakvörður, lék 26 af 27 deildarleikjum FH á síðustu leiktíð, undir stjórn Heimis Guðjónssonar, og skoraði tvö mörk.

Jóhannes Karl tók við FH í vetur og sagði þá í viðtali við Vísi að sér þætti of mikið af gömlum leikmönnum í Bestu deildinni.

„Það sem hefur verið mjög sérstakt við íslensku deildina undanfarin ár, þó það hafi sem betur fer verið að lagast, þá hefur þetta verið alltof gömul deild. Í alltof langan tíma höfum við verið að spila liðum sem hafa verið með um 30 ára meðalaldur,“ sagði Jóhannes. Slík sé ekki raunin í nágrannalöndunum.

„Ef við lítum til Noregs eða Danmerkur er meðalaldur bestu liða í efstu deild í kringum 25 til 26 ár eða eitthvað svoleiðis. Of lengi hefur verið spilað á of gömlum leikmönnum á Íslandi, að mínu viti. Ég fagna því að lið séu farin aðeins að endurhugsa sína nálgun á leikmannamarkaði,“ sagði Jóhannes, staðráðinn í að yngja upp FH-liðið en um leið að koma því aftur í fremstu röð.

„Félagið hefur farið í stefnumótun og það er komin strategía sem á að fylgja. Inni í því, sem snýr að meistaraflokki karla, er að hafa hann sem vettvang fyrir unga efnilega og góða leikmenn innan félagsins að láta ljós sitt skína,“ sagði Jóhannes og bætti við:

„Auðvitað þurfa menn að vera tilbúnir að leggja á sig ansi mikla vinnu til að komast þangað. Það er ekki auðvelt að komast í meistaraflokk FH. Að sama skapi erum við að skoða unga og efnilega leikmenn á öllu landinu sem passa inn í þetta módel sem við erum að reyna að framfylgja,“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×