Stundum kemur Skeggapinn heim til mín á nóttunni meðan allir sofa. Hann safnar hári á sinn risastóra og hárlausa skrokk enda enginn api með öpum án myndarlegrar bringu- og bakmottu. Hann gengur því milli heimila, stundum í fylgd góðvinar síns tannálfsins, og tínir tilfallandi skeggvöxt af pöbbum, öfum og frændum og reynir að festa á sig með ýmsum ráðum. Sumir telja að hann beri ábyrgð á hvarfi teygja og hárspenna líka en það hefur ekki fengist staðfest. Þessu trúum við öll á heimilinu, einkum þó heimilisfaðirinn, sem er jafnhissa og allir aðrir yfir því að hann skuli sofna með nokkurra daga brodda og vakna morguninn eftir jafn nauðasköllóttur í framan og aðrir í fjölskyldunni.