Innlent

Flestir vilja Geir í formannsstól

Sjö af hverjum tíu sem afstöðu tóku vilja sjá Geir H. Haarde fjármálaráðherra sem formann Sjálfstæðisflokksins ef Davíð Oddsson lætur af störfum, að því er fram kemur í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins. 17,5 prósent þeirra sem afstöðu tóku sögðust hins vegar vilja sjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra sem formann Sjálfstæðisflokksins láti Davíð Oddsson af störfum. Stuðningur við Geir Haarde virðist hafa dalað örlítið frá síðustu skoðanakönnun blaðsins sem tekin var í mars. Þá sögðust rúm 72 prósent aðspurðra vildu sjá Geir taka við af Davíð. Fylgi Þorgerðar Katrínar virðist hins vegar hafa aukist nokkuð, úr 14,4 prósentum í 17,5. Þessar breytingar eru þó innan skekkjumarka. Skoðanakönnun                            mars        nú Geir H. Haarde                               72,1%     70,3% Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir      14,4%     17,5% Björn Bjarnason                               6,0%       2,1% Halldór Blöndal                                1,0%       1,6% Aðrir mældust með mun minni stuðning. 2,1 prósent þeirra sem afstöðu tóku nefndu Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sem hugsanlegan arftaka Davíðs og 1,6 prósent nefndu Halldór Blöndal, forseta Alþingis. Þá vildu 0,8 prósent sjá Halldór Ásgrímsson, formann Framsóknarflokksins, taka við af Davíð sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Þorgerður Katrín nýtur meira fylgis meðal kvenna en karla í könnuninni. 21,5 prósent kvenna sem afstöðu tóku vildu sjá Þorgerði Katrínu sem formann Sjálfstæðisflokksins láti Davíð Oddsson af störfum. 14,5 prósent karla vildu sjá slíkt hið sama. Þá virðist Geir njóta nokkuð meira fylgis karla, 72 prósent karla nefndu hann samanborið við rúm 68 prósent kvenna. Nokkuð færri konur tóku hins vegar afstöðu en karlar. Meðal annarra sem nefndir voru í könnuninni voru Gísli Marteinn Baldursson sjónvarpsmaður, Sigríður Anna Þórðardóttir, verðandi umhverfisráðherra, Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra, Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor og Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi. Úrtakið í skoðanakönnun blaðsins var 800 manns sem skiptist jafnt milli kynja og hlutfallslega eftir kjördæmum. Spurt var: Hvern vilt þú sjá sem formann Sjálfstæðisflokksins ef Davíð Oddsson lætur af störfum? Tæpur helmingur aðspurðra tók afstöðu til spurningarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×