Innlent

Grunaður um höfuðkúpubrot

Karlmaður á þrítugsaldri situr í gæsluvarðhaldi á Akureyri grunaður um að hafa höfuðkúpubrotið annan mann og veitt honum fleiri áverka. Fórnarlambið var lagt inn á gjörgæsludeild. Neyðarlínunni var aðfararnótt síðastliðins fimmtudags tilkynnt um slys í Öxnadal og að karlmaður á fertugsaldri hefði misst meðvitund. Þegar lögregla kom á staðinn voru þar tvær manneskjur auk hins slasaða. Fólkið á staðnum sagði manninn hafa fallið á veginn og slasast þegar hann fór út úr bílnum eftir að til deilna kom. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús á Akureyri þar sem í ljós kom að hann var höfuðkúpubrotinn og blætt hafði inn á heila hans, auk þess sem hann var bæði kinn- og nefbeinsbrotinn og var hann lagður inn á gjörgæsludeild. Hann hefur nú verið fluttur á handlækningadeild. Við frekari rannsókn kom í ljós að atburðarrásin hafði verið með öðrum hætti en upphaflega var lýst og að fleiri hefðu verið á staðnum þegar maðurinn hlaut áverkana. Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn í kjölfarið og var úrskurðaður í gæsluvarðhald, grunaður um að vera valdur að áverkum mannsins. Að sögn lögreglunnar eru hinn grunaði og fórnarlambið Akureyringar og hafa komið við sögu lögreglu áður í tengslum við fíkniefnamál.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×