Innlent

Ekkert svigrúm til launahækkana

Sveitarfélögin hafa einfaldlega ekki svigrúm til að greiða 30 til 35 prósenta hækkun á launakostnaði kennara, segir Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra. "Í því felst ekki neinn dómur um hvort það er réttlát lausn fyrir kennara eða ekki," segir Guðmundur. Stefán J. Hafstein, formaður fræðsluráðs, segir ríkið hafa svelt grunnskólann lengi fyrir flutninginn til sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafi gert endanlegan samning við ríkið þegar þau tóku við grunnskólunum og eigi ekki von á auka fjárveitingu. "Ég held að sveitarfélögin hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað mikið skorti á eftir að ríkið hafði verið með skólana í svelti. Launakjörin voru slæm og grunnskólinn var í mikilli kreppu þegar ríkið skilaði honum af sér. Þær nauðsynlegu úrbætur sem hafa skilað sér í skólana hafa verið mjög kostnaðarsamar," segir Stefán Jón. Guðmundur segir ekki hægt að auka tekjur sveitarfélaga með einföldum hætti: "Það er ekki borðleggjandi að við sem íbúar séum tilbúnir að leggja á okkur hærri álögur og það liggur ekki í borði að það komi meiri tekjur frá ríkinu vegna grunnskólans. Það er víða þannig að erfitt er að reka aðra þjónustu þegar kostnaður við fræðslu er orðinn um 60 til 70 prósent. Þetta er flókinn og erfiður hnútur til úrlausnar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×