Innlent

Breytingar breytinganna vegna

Forsvarsmenn íþróttahreyfinga Reykjavíkur óttast að breytingar á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar dragi úr fjármagni til íþrótta- og tómstundamála sé litið til lengri tíma, segir Ragnar Reynisson formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn segir R-listann hafa staðið í mörgum lítt hugsuðum breytingum á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. Ragnar segir núverandi kerfi ekki flókið. Með breytingunni gæti hins vegar orðið erfiðara að ná til manna sem hafi raunverulegan áhuga á íþróttum: "Við hræðumst að áherslunum verði breytt og meiri peningar verði settir í menningarmálin en íþróttamálin. Við hræðumst að eiga erfiðara með að þoka okkar málum áfram í kerfinu," segir Ragnar. Hann segir að þó hægt sé að finna sameiginlega snertifleti íþrótta og menningarmála séu málefnin í heildina ólík. Forkólfar menningarmála nefni til dæmis oft til sögunnar að nú hafi nægilega verið byggt af íþróttahöllum og fótboltavöllum, að komið sé að byggingu tónlistarhallar. Vilhjálmur segir nauðsynlegt að leitað verði samráðs um breytingarnar. "Markmiðið með breytingum á stjórnkerfi borgarinnar á að vera að bæta og efla þjónustu við borgarbúa og auðvelda þeim aðgengi að stjórnsýlslunni. Ekki aðeins að gera breytingar breytinganna vegna."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×