Innlent

Fyrirtæki ekki rekin með ógnunum

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, neitar því alfarið að útgerðarfélagið sé komið á svig við lög og reglur með samningum sínum við áhöfn Sólbaks. "Það er félagafrelsi í landinu," bendir Guðmundur á og segir bæði áhöfn Sólbaks og útgerðarfélagið sátt við samninginn. "Landslög kveða á um að ekki megi semja undir gildandi lágmarkslaunum og það erum við heldur ekki að gera," sagði hann og bætti við að ekki væri hægt að tala um að kjaradeila væri í gangi þar sem forsvarsmenn samtaka sjómanna væru ekki með aðgerðir að beiðni áhafnarinnar. Guðmundur fordæmdi það sem hann kallaði "ólöglegar ofbeldisaðgerðir" forystumanna samtaka sjómanna og sagði stóryrði þeirra síst til að stuðla að lausn deilunnar. Þá hafnar Guðmundur því alfarið að útgerðin beiti áhöfn Sólbaks ofríki. "Þetta er algjör della. Það rekur enginn fyrirtæki með því að ógna fólki. Vinnustaðir þurfa samheldni," segir hann og bætti við að í upphafi hefði útgerðin viljað vinna með stéttarfélögum sjómanna í að aðlaga kjarasamninga að þörfum útgerðarinnar sem yrði að geta brugðist við auknum kröfum um fljótari afhendingartíma vörunnar. "En það fékkst ekki, heldur fengum við bara "nei" eins og alltaf," sagði hann og benti á að ekki hefðu tekist samningar með útgerðarmönnum og sjómönnum árum og áratugum saman. "Það er eitthvað hjá kerfinu sem þarf að breyta fyrst svona illa gengur að ná samkomulagi."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×