Erlent

Allt logar í málaferlum

Það virðist ekki fjarri lagi að kalla megi komandi forsetakosningar í Bandaríkjunum kosningar hinna miklu málaferla. Aldrei áður í sögunni hafa jafn mörg mál verið höfðuð í tengslum við kosningar og aldrei hafa jafn margir lögmenn verið fengnir til að fylgjast með framgangi kosninganna að því er fram kemur í The New York Times. Úrslit kosninganna fyrir fjórum árum réðust ekki fyrr en löngu eftir kosningar þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna felldi endanlegan dóm sinn. Þá höfðu lögmenn átt sviðið um langt skeið. Barátta lögmannanna vegna þessara kosninga er löngu hafin. Demókratar hafa höfðað mál á hendur repúblikönum, repúblikanar hafa höfðað mál gegn demókrötum og demókratar hafa höfðað mál til að koma í veg fyrir að óháði frambjóðandinn Ralph Nader fái nafn sitt prentað á kjörseðlana í nokkrum ríkjum. Nú er baráttan í algleymingi að því er fram kemur í The New York Times. Repúblikanar í Nýju Mexíkó töpuðu á dögunum máli gegn demókratanum sem er innanríkisráðherra Nýju Mexíkó, þeir vildu að nýir kjósendur þyrftu að sýna skilríki á kjörstað en það vildi ráðherrann ekki. Demókratar í Flórída hafa höfðað tíu málshöfðanir gegn repúblikönum í kjörstjórnum. Í Colorado deila svo kosnir fulltrúar, innanríkisráðherrann úr Repúblikanaflokknum hefur sakað ríkissaksóknarann, sem er demókrati, um að rannsaka ekki nægilega vel ásakanir um svindl við skráningu. Þetta eru þó smámunir miðað við undirbúninginn fyrir sjálfar kosningarnar. Repúblikanar hafa fengið þúsundir lögmanna til liðs við sig til að fylgjast með framkvæmd kosninganna og segja undirbúninginn þann víðtækasta í sögu flokksins. Demókratar segjast hafa gert enn betur og eru með tíu þúsund lögmenn á skrá. Að auki hafa ýmis samtök fengið þúsundir lögmanna til að hjálpa kjósendum sem kunna að lenda í vandræðum á kjördag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×