Innlent

Tuga milljóna tjón

Víst þykir að kviknað hafi í út frá heyi þegar 600-700 fjár brunnu inni á bænum Knerri á Snæfellsnesi í gærkvöldi. Fjárhús, hlaða og vélageymsla, og margar vinnuvélar, brunnu þar til kaldra kola. Tjón er metið á tugi milljóna króna. Menn lögðu sig í mikinn háska við að reyna að bjarga sauðfénu. Bærinn Knörr er í Breiðuvík á utanverðu Snæfellsnesi. Fólk á bænum varð eldsins vart á áttunda tímanum í gærkvöldi og kallaði þegar á hjálp. Upptök eldsins voru í heyi í hlöðu en súrheysþurrkun var í gangi. Milli 20 og 30 slökkviliðsmenn úr slökkviliðum Snæfellsbæjar og Grundartanga börðust við eldinn en slökkvistarf gekk afleitlega vegna hvassviðris og sviptivinda. Menn lögðu sig í mikla hættu; bæði fuku bárujárnsplötur og eldtungur gusu á móti mönnum þegar þeir reyndu að bjarga sauðfénu út. Í fjárhúsunum voru hátt í 700 lömb en til stóð að senda þau í sláturhús í fyrramálið. Aðeins tókst að bjarga 10-20 lömbum úr eldinum. Eldurinn barst einnig í vélageymslu og eyðilagðist fjöldi dýrra og stórra tækja, þ.á m. þrjár dráttarvélar, flutningabíll, skurðgrafa og heyvinnutæki. Slökkviliðsmenn lentu í vandræðum vegna vatnsskorts og þurftu að sækja vatn á næsta bæ. Svo skjótt magnaðist raunar eldurinn að það var líkast til sem sprenging yrði og þótti mikið mildi að mennirnir, sem reyndu að bjarga fénu, skulu hafa sloppið ómeiddir.
MYND/Pjetur
MYND/Pjetur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×