Innlent

Ekki óskað gæsluvarðhalds

Lögreglan ætlar ekki að óska eftir því að mennirnir þrír sem réðust inn á ritstjórn DV í vikunni og tóku fréttastjóra hálstaki verði settir í gæsluvarðhald. Rannsókn málsins lýkur í dag. Í morgun var byrjað að yfirheyra vitni og lýkur því væntanlega í dag, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni. Þetta eru milli 15 og 20 vitni. Mennirnir þrír voru yfirheyrðir í gær. Það er því stefnt að því að ljúka rannsókninni fyrir vinnulok í dag. Að sögn lögreglunnar verður ekki óskað eftir gæsluvarðhaldi yfir mönnunum. Meira þurfi að koma til en þeir eru grunaðir um brot á þeirri grein hegningarlaga sem fjallar um minniháttar líkamsárás, nánar tiltekið grein 217, sem varðar sektum eða sex mánaða fangelsi, en eins árs fangelsi ef háttsemin telst sérstaklega vítaverð. Auk þess verða þeir hugsanlega ákærðir fyrir eignaspjöll. Lögreglan segir það ekki breyta því að um háalvarlegt mál sé að ræða. Nálgunarbann er eitt þeirra úrræða sem m.a. ritstjóri DV, Mikael Torfason, óskaði eftir vegna hótana áður en þetta mál kom til. Síðastliðið ár hafa héraðsdómstólar aðeins úrskurðað um sjö nálgunarbönn. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað um tvö, Héraðsdómur Reykjaness um tvö og Héraðsdómur Suðurlands um þrjú, þar af tvö á sama manninn. Flest af þessum málum eru sifjamál, það er, á milli hjóna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×