Innlent

Auðun hætti við að þiggja starfið

Auðun Georg Ólafsson ætlar ekki að þiggja starf sem fréttastjóri útvarpsins sem Markús Örn Antonsson réð hann til. Hann sendi tilkynningu um ákvörðun sína á alla fjölmiðla um klukkan sex. Auðun Georg segir í yfirlýsingunni að með tilliti til aðstæðna á fréttastofunni ætli hann ekki þiggja starf fréttastjóra og ekki að skrifa undir ráðningarsamning. Hann segist hafa sótt um starfið á jafnréttisgrundvelli án þess að vera hvattur til þess og ekki í umboði eins eða neins, hvorki stjórnmálaafla né annarra. Hann segir að þrátt fyrir að vegið hafi verið að persónu sinni á ósanngjarnan hátt og mannorð hans svert með röngum ásökunum og hreinum lygum og allt að því hótunum hafi hann samt ákveðið að mæta til starfa með opnum huga og gefa fréttamönnum útvarpsins tækifæri til að sýna sanngirni, hlutleysi, réttlæti og að fagleg vinnubrögð væru höfð að leiðarljósi. Fréttamaður útvarpsins hafi á lævísan hátt reynt að koma honum í vandræði í viðtali í dag og það hafi tekist þar sem hann hafi ekki viljað rjúfa trúnað. Fréttamaðurinn hafi hins vegar ekki verið hlutlaus. Hér vísar Auðun Georg til fréttaviðtals í hádegisfréttum Útvarpsins í dag þar sem hann var spurður um hvort hann hefði formann útvarpsráðs á fundi í gær. Auðun Georg neitaði því fyrst en játaði það síðar í viðtalinu. Í tilkynningunni segir hann enn fremur að hann hafi hlakkað til að hefja störf á fréttastöfu sem naut trausts og þekkt var fyrir málefnaleg og fagleg vinnubrögð. Það sé með trega sem hann lýsi því yfir að þær væntingar hafi verið byggðar á misskilningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×