Sport

Gaflarar berast á banaspjótum

Lokahnykkurinn á löngu handboltatímabili byrjar í kvöld þegar átta liða úrslit í DHL-deild karla hefjast en öll átta liðin verða í eldlínunni í kvöld. Íslandsmeistarar Hauka hefja sína baráttu gegn nágrönnunum og erkifjendunum í FH en fyrsti leikurinn fer fram á Ásvöllum. FH-ingar eru ekki taldir líklegir til afreka í þessari rimmu enda tryggðu þeir sér sæti í úrslitakeppninni með naumum sigri á Víkingi í umspili en á sama tíma sigruðu Haukar úrvalsdeildina. Styrkleikamunurinn er því ansi mikill en allt getur gerst í úrslitakeppninni þar sem lítið svigrúm er fyrir mistök. Sú rimma sem fyrir fram er talin mest spennandi er viðureign Vals og HK. Bæði lið hafa verið frekar óstöðug í vetur en miklar væntingar voru gerðar til HK-liðsins og þeim var meðal annars spáð Íslandsmeistaratitlinum af forráðamönnum liðanna síðasta haust. Það hefur hallað undan fæti hjá Kópavogsbúum í síðustu leikjum en Valsmenn hafa verið að styrkjast frekar en annað upp á síðkastið. Rimma ÍR og KA verður einnig áhugaverð en bikarmeistarar ÍR mæta til leiks með laskað lið en landsliðsmaðurinn Ingimundur Ingimundarson mun reyna að leika meiddur í úrslitakeppninni en hann þarf að fara í speglun fyrr frekar en síðar. ÍBV hefur verið á stöðugri uppleið í allan vetur og þeir eru margir sem spá því að þeir fari langt í vetur. Sérstaklega eftir að þeir fengu stórskyttuna Tite Kalandadze í sínar raðir. Eyjamenn taka á móti Fram sem tryggði sér sæti í úrslitakeppninni með því að sigra 1. deildina. Framarar tefla fram frekar ungu liði og mat sérfræðinga er að þeir verði auðveld bráð fyrir lið ÍBV.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×