Sport

Óttast að félagið fari í gjaldþrot

Einar Örn Jónsson og félagar hans hjá þýska liðinu Wallau Massenheim þurfa að bíða áfram í óvissu um framtíð félagsins en það rambar á barmi gjaldþrots og leikmenn hafa ekki enn fengið greidd laun á þessu ári. Einar og félagar áttu von á því að fá skýr svör um framtíðina á fundi í gær en stóðu eftir litlu nær. "Það var ekki hægt að lofa okkur miklu nema að við fengjum þrjá mánuði greidda frá ríkinu færi svo að félagið endaði í gjaldþroti. Þetta virðist ekki líta vel út," sagði Einar Örn í gær. "Það er verið að leita allra leiða til þess að halda félaginu gangandi. Vandamálið liggur í því að það á enga peninga til þess að greiða upp skuldir. Styrktaraðilar sem hafa verið að setja peninga í félagið eru hættir því þar sem þeir óttast að félagið fari í gjaldþrot." Einar segir að leikmenn séu í algjörri óvissu um framtíðina en þeir hafi um lítið annað að velja en að halda áfram að spila og vona það besta enda ekki hægt að skipta um félag á þessari stundu. Wallau hefur boðið Einari nýjan samning og hann hyggst skrifa undir þann samning takist að bjarga félaginu. "Félög sem hafa klórað sig út úr álíka veseni eru í nokkuð góðum málum í dag. Þeir sem eru búnir að brenna sig eru ekkert að setjast á grillið aftur. Þetta er samt hið flóknasta mál og við fengum í raun ekkert nema staðfestingu á því sem við vissum fyrir," sagði Einar Örn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×