Sport

Logi með 7 í stórsigri

Logi Geirsson skoraði sjö mörk og var markahæstur ásamt Christian Schwartzer þegar Lemgo sigraði Post Schwerin með 38 mörkum gegn 22 í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Á meðal áhorfenda á leiknum var 12 ára piltur, Birgir Valdimarsson, en Logi bauð honum og fjölskyldu hans til Þýskalands til þess að fylgjast með leiknum. Birgir greindist með hvítblæði fyrir nokkrum mánuðum og hefur verið í erfiðri meðferð. Logi strengdi áramótaheit og ákvað að bjóða langveiku barni á leik með liði sínu Lemgo. Birgir og foreldrar hans fengu því að sjá Loga í miklu stuði í gær. Framtak Loga hefur vakið mikla athygli. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði átta mörk þegar Essen tapaði fyrir Dusseldorf með tveggja marka mun, 27-25, á útivelli. Guðjón var markahæstur í liði Essen ásamt Oleg Velyky sem einnig skoraði átta mörk. Íslensku landsliðsmennirnir Markús Máni Michaelsson og Alexander Peterson skoruðu þrjú mörk hvor fyrir Dusseldorf. Efsta lið deildarinnar, Kiel, sigraði Wetzlar, 30-24, Róbert Sighvatsson skoraði eitt mark fyrir Wezlar. Sigfús Sigurðsson skoraði einnig eitt mark þegar Magdeburg gerði jafntefli við Gummersbach, 27-27. Þá sigraði Hamborg Nordhorn, 31-29, og Flensburg burstaði Luvecke, 45-30. Daninn Sören Stryger skoraði 13 mörk fyrir Flensburg sem er líkt og Kiel með 50 stig en hefur leikið einum leik meira en Kílarmenn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×