Innlent

Funda um ofbeldi á þriðjudag

Akureyringar ætla ekki að láta mótmæli gegn ofbeldi og fíkniefnum í bænum í gær nægja því boðað hefur verið til borgarafundar í Ketilshúsinu á þriðjudaginn kemur þar sem ræða á hvernig hægt sé að draga út eða stöðva það ofbeldi og þann vímuefnavanda sem fréttir hafa borist af að undanförnu. Um þúsund manns söfnuðust saman á Ráðhústorginu í gær og sýndu ofbeldi rauða spjaldið, en bæjarbúum þótti nóg komið í kjölfar frétta af hrottalegum árásum tengdum fíkniefnum í bænum. Að fundinum á þriðjudag stendur áhugafólk um forvarnir og verður bæjarbúum gefinn kostur á að tjá sig um málið þar. Þá hafa netverjar slegist í lið með Akureyringum og veifa nú margir hverjir rauða spjaldinu gegn ofbeldi á heimasíðum sínum. Meðal þeirra síðna sem sýnt hafa rauða spjaldið eru sniglar.is, öryggi.net, alvaran.com og meðvitund.is og þá munu fleiri vefsíður taka upp spjaldið rauða á næstu dögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×