Sport

Við Eiður Smári grétum saman

Í nýútkominni bók sinni greinir John Terry, fyrirliði Chelsea, frá þeirri angist sem greip um sig meðal leikmanna liðsins eftir að þeir féllu úr Meistaradeildinni gegn Liverpool í undanúrslitum, annað árið í röð í vor og segir að tapið hafi fengið hvað mest á þrjá leikmenn liðsins. „Við vorum vissir um að við næðum að sigra Liverpool og allir voru að segja að þetta yrði árið okkar. Stemmingin á þessum leik var sú rosalegasta sem ég hef orðið vitni að á ferlinum og hárin risu á handleggjunum á mér þegar ég heyrði söng áhorfendanna þegar ég gekk inn á völlinn. Þegar það lá hins vegar fyrir að við hefðum tapað á Anfield, greip um sig örvænting sem ég á erfitt með að lýsa," sagði Terry. „Ég táraðist þegar Eiður Smári brenndi af úr síðasta færi okkar í uppbótartíma og ljóst var að við hefðum tapað. Það er átakanlegt þegar fullorðnir menn brotna svona niður eftir að þeir missa af takmarki sínu. William Gallas var frávita af örvæntingu og það sama má segja um okkur Eið Smára. Við grétum og vorum algerlega í rusli eftir þetta. Þjálfarinn sagði okkur að okkar tími ætti eftir að koma í Meistaradeildinni, en það stoðaði lítið á þessari stundu. Þetta var versti dagur í lífi mínu sem fótboltamanns," sagði John Terry í bók sinni sem selst væntanlega eins og heitar lummur næstu daga í Bretlandi enda er Terry óhemju vinsæll leikmaður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×