Sport

Gaui fúll yfir agaleysi leikmanna

Leikmenn Notts County hafa nælt sér í þrjú rauð spjöld í síðustu fjórum leikjum og stjóri liðsins, Guðjón Þórðarson, hefur ákveðið að grípa til ráða svo þetta agaleysi leikmanna endurtaki sig ekki í næstu leikjum. Allir þessir leikmenn fengu beint rautt spjald fyrir glórulausar tæklingar og fóru þar af leiðandi allir í þriggja leikja bann. Hópurinn hjá Guðjóni er þunnskipaður fyrir þannig að hann má illa við því að missa þessa stráka í leikbönn. Guðjón er búinn að gera leikmönnum liðsins það ljóst að hann muni ekki líða slíka framkomu það sem eftir er tímabilsins og þeir sem ekki geti haldið sig á mottunni verða teknir til kostanna. "Ég er mjög ósáttur við agaleysi ákveðinna leikmanna liðsins," segir Guðjón á heimasíðu Notts County en hann sektaði þessa þrjá leikmenn eins mikið og mögulegt var. "Ég vinn ekki svona. Ég vil vera ákveðinn en sanngjarn og ég mun ekki líða þetta agaleysi. Það er búið að sekta þessa menn og mál þeirra er frágengið. Við höfum farið eftir ströngustu reglum og nýtt okkur það svigrúm sem reglurnar gefa okkur til þess að refsa leikmönnunum. Þeir sættu sig við það.Það er ekki nokkur leið að slíkt agaleysi verði liðið hér hjá okkur og ég hef sent út skýr skilaboð með þessum sektum. Það er líka svekkjandi þegar menn fá rauð spjöld fyrir kjánaskap," sagði Guðjón.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×