Innlent

Sjúkraliðar látnir sitja á hakanum

Kristín Á. Guðmundsdóttir, lengst til vinstri, ásamt fleiri sjúkraliðum.
Kristín Á. Guðmundsdóttir, lengst til vinstri, ásamt fleiri sjúkraliðum. MYND/GVA

Sjúkraliðar hafa vísað launadeilu sinni við launanefnd sveitarfélaga til Ríkissáttasemjara. Formaður Sjúkraliðafélags Íslands segir ástæðuna þá að launanefndin hafi ekki gefið sér tíma til að funda með sjúkraliðum.

 

Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, segir félagið hafa gefist upp á biðinni eftir að launanefnd sveitarfélaga sæi sér fært að ræða launamál sjúkraliða. Hún segir samninga hafa verið lausa síðan í nóvember og þó að fyrst um sinn hafi verið beðið eftir samningum sjúkraliða við ríkið hefðu viðræður við sveitarfélögin að geta hafist síðasta sumar, það hafi hins vegar ekki gerst. Kristín segir að fyrst hafi sumarfrí launanefndarmanna tafið fyrir samningum og síðan hafi launanefndin einbeitt sér að samningum við starfsmannafélög sveitarfélaga þar sem verkföll hafi legið í loftinu.

 

Fulltrúar sjúkraliða og launanefnd sveitarfélaga funda hjá Ríkissáttasemjara klukkan fimm í dag en ekki er búist við að niðurstaða fáist á þeim fundi.

 

 

Sjúkraliðar höfðu áður vísað deilu sinni við samningamenn sjálfseignarstofnana á heilbrigðissviði til Ríkissáttasemjara. Ekki er komin niðurstaða í það mál en næsti fundur verður á morgun.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×