Ómar Stefánsson bæjarfulltrúi hrósaði sigri í prófkjöri Framsóknarmanna í Kópavogi sem fram fór í gær. Sigur hans var þó naumur því aðeins munaði sjötíu atkvæðum á honum og Samúel Erni Erlingssyni sem lenti í öðru sæti.
Atkvæði dreifðust mjög á frambjóðendur eins og sést best á því að Ómar Stefánsson sem hlaut fyrsta sætið fékk aðeins rétt rúmlega fjórðung atkvæða í fyrsta sætið eða 666 atkvæði af þeim 2.556 atkvæðum sem voru greidd í prófkjörinu. Samúel Örn Erlingsson, sem endaði í öðru sæti fékk rúmlega þriðjung atkvæða í fyrsta og annað sætið. Litlu munaði á honum og Unu Maríu Óskarsdóttur varabæjarfulltrúa sem lenti í þriðja sæti. Hefðu fimm stuðningsmenn Samúels Arnar sett Unu Maríu í annað sætið í stað hans hefði hún fengið annað sætið en Samúel Örn orðið að láta sér annað sætið lynda.
Samúel Örn var hins vegar aðeins sjötíu atkvæðum á eftir Ómari Stefánssyni sem var kosinn í fyrsta sætið. Það munaði því aðeins um þremur prósentum heildaratkvæðafjölda á þeim tveimur.
Niðurstöður prófkjörsins eru ekki bindandi fyrir uppstillingu á lista Framsóknar fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Þær uppfylla hins vegar skilyrði um jafna kynjaskiptingu í sex efstu sætin.Ekki náðist í Ómar Stefánsson fyrir fréttir.