Tónlist

Undurfögur og heillandi

Hljómfagur plata sem nær að hreyfa við ýmsum tilfinngum á tregafullan hátt. Stjörnur: 4
Hljómfagur plata sem nær að hreyfa við ýmsum tilfinngum á tregafullan hátt. Stjörnur: 4

Skúli Sverrison er kannski ekki þekktasti tónlistarmaður þjóðarinnar en hann er svo sannarlega með þeim farsælustu. Samstarf við bæði Blonde Redhead og Laurie Anderson sanna það. Sería er fyrsta sólóbreiðskífa Skúla sem er gefin út hérlendis en hana er ákaflega erfitt að tengja við einhverja ákveðna tónlistarstefnu. Mætti þó kannski lýsa sem tregafullu avant-garde poppi.

Platan er mest megnis án söngs og byggjast flest laganna í grunninn á bassa-, gítar og dóbróleik Skúla sem er reyndar fyrst og fremst bassaleikari. Lögin fá síðan ýmsar fléttur sem litglæða lögin og hvert einasta lag hefur sinn sjarma.

Lögin sveiflast allt frá því að vera heltekin af harmi (Nineteen Centuries) yfir í lostafulla gælu (Her Searching Hands) en treginn er þó alltaf til staðar og gegnum gangandi út alla plötuna.

Góðir gestir prýða plötuna og má þar helst nefna Jóhann Jóhannsson, Hilmar Jensson, Amedeo Pace (úr Blonde Redhead), Hildi Guðnadóttir og Laurie Anderson. Einn gestanna setur þó sinn svip á plötuna svo um munar en það er Ólöf Arnalds. Hún syngur texta sína við þrjú lög plötunnar; Geislar hennar, Sungið ég gæti og Vaktir þú og eru þau öll með sterkustu lögum plötunnar. Sérstaklega hið síðastnefnda sem er undurfagurt og uppfullt af ýmsum blæbrigðum sem hreyfa við ýmsum tilfinningum innra með manni.

Söngur Ólafar er líka nánast himneskur og textar hennar passar einkar vel við (svo sannarlega tilhlökkunarefni fyrir frumburð Ólafar sem er væntanlegur snemma á næsta ári). Önnur áberandi sterk lög á plötunni fyrir utan þau sem áður hafa verið nefnd eru Binding Garden, One Night Of Swords og Sería. Ekki má heldur gleyma framlagi Anthony Burr sem hefur lengi unnið náið með Skúla og á mikið í hljómi plötunnar sem er ein sú hljómfegursta sem komið hefur út á þessu ári.

Steinþór Helgi Arnsteinsson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×