Innlent

Hugmyndir um flutning Árbæjarsafns vanhugsaðar

MYND/Heiða

Hugmyndir stjórnmálamanna um flutning hluta af Árbæjarsafns út í Viðey eru vanhugsaðar að mati starfsfólks safnsins. Það segir núverandi staðsetningu ekki hamla starfinu og vill byggja frekar upp í Árbænum og gerða Elliðaárdalinn í nágrenninu að safnadal.

Borgarráð fól á dögunum borgarstjóra að kanna kosti og galla þess að flytja stóran hluta Árbæjarsafns út í Viðey með það að markmiði að auka aðsókn í Viðey. Jafnframt er hugmyndin að reisa íbúðir á hluta núverandi svæðis Árbæjarsafns.

Starfsmenn safnsins andæfa þessum hugmyndum og segja málið ekki hugsað með hagsmuni safnsins að leiðarljósi. Ljóst sé að þjónusta við almenning versni ef hugmyndirnar verði að veruleika. Gerður Róbertsdóttir, deildarstjóri varðveislu á Árbæjarsafninu, bendir á að þúsundir skólabarna heimsæki safnið árlega og það geti verið vandkvæðum bundið að flytja þá út í eyna á veturna. Menn þekki af reynslunni að ekki sé alltaf auðvelt að komast út í ey.

Stjórn Félags íslenskra safna og safnmanna tekur undir áhyggjur starfólks Árbæjarsafns og segir faglega hagsmuni safnsins ekki hafða að leiðarljósi. Gerður bendir enn fremur á að starf minjasafnsins snúist ekki um húsin ein og sér heldur einnig rannsóknir á fornminjum og sögu Reykjavíkur. Hugmyndin sé því vanhugsuð. Gerður segir enn fremur að flutningurinn sé vandasamur því burðarvirki húsanna sé viðkvæmt og bendir á að Lækjargötuhúsið á safninu hafi hrunið við síðustu flutninga og hún spyr hvað gerist þegar húsið fari út á sjó.

Gerður segir að þvert á það sem haldið sé fram hamli staðsetningin ekki starfinu en árlega koma um 40 þúsund manns á Árbæjarsafnið. Hún segir enn fremur að starfsfólkið vilji þétta byggðina á safninu og tengja það betur Elliðaárdalnum þannig að fólk geti komið við á safninu í sunnudagsgöngunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×