Hnefaleikarinn Shane Mosley lofar að setja á svið flugeldasýningu fyrir áhorfendur á laugardagskvöldið þegar hann mætir Fernando Vargas í Las Vegas í bardaga sem sýndur verður á sjónvarpsstöðinni Sýn. Þeir félagar mættust áður í febrúar og þar var Mosley dæmdur sigur eftir að Vargas hlaut skurð í andliti, sem hann sagðist hafa fengið eftir að Mosley skallaði sig.
"Þetta verður frábær bardagi, því við eigum líklega aldrei eftir að mætast aftur í hringnum. Hvorugur okkar er að fara þarna inn í hringinn til að dansa í kring um andstæðinginn - við erum báðir að leita að rothögginu," sagði Mosley sem hefur unnið 42 bardaga og tapað aðeins 4, en Vargas á að baki 26 sigra og 3 töp.