Fagnaðarlætin voru mikil þegar fótboltaliðið New Orleans Saints hljóp inn á heimavöll sinn Louisiana Superdome í New Orleans í gærkvöld, í fyrsta skipti síðan fellibylurinn Katrina stórskemmdi íþróttahöllina.
Síðasti leikurinn á vellinum var fyrir rúmu ári, 26. ágúst 2005, þremur dögum áður en Katrina reið yfir borgina og nágrenni. Endurbætur á höllinni hafa kostað hundruð milljóna bandaríkjadala en heimamenn og aðdáendur liðsins segja hana stóran hluta af ímynd og umhverfi borgarinnar og það að hún sé aftur komin í gagnið færi borgarbraginn töluvert nær eðlilegum gangi.