Körfubolti

Bonzi Wells semur við Houston Rockets

Bonzi Wells var stórkostlegur í fyrstu umferð úrslitakeppninnar gegn San Antonio en það var ekki nóg til að sannfæra liðin í deildinni um að það borgaði sig að gera við hann langtímasamning, enda á Wells sér nokkra vandræðasögu í deildinni
Bonzi Wells var stórkostlegur í fyrstu umferð úrslitakeppninnar gegn San Antonio en það var ekki nóg til að sannfæra liðin í deildinni um að það borgaði sig að gera við hann langtímasamning, enda á Wells sér nokkra vandræðasögu í deildinni NordicPhotos/GettyImages

Framherjinn Bonzi Wells sem lék með Sacramento Kings í NBA deildinni á síðustu leiktíð hefur gengið frá samningi við Houston Rockets. Wells var síðasta "stóra nafnið" á lista leikmanna sem voru með lausa samninga fyrir næsta tímabil, en samningur hans við Texas liðið er aðeins til tveggja ára og getur hann orðið laus allra mála eftir næsta tímabil.

Wells er frábær leikmaður en hefur verið duglegur við að koma sér út í kuldann hjá liðum sem hann hefur leikið fyrir vegna agavandamála. Wells skoraði 13,6 stig og hirti 7,7 fráköst að meðaltali í leik með Sacramento í fyrra, en sprakk út í úrslitakeppninni og fór hamförum gegn þáverandi meisturum San Antonio Spurs í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Sacramento vildi halda Wells áfram en var ekki tilbúið að borga honum þær 50 milljónir fyrir langtímasamning sem talið er að hann hafi fengið umboðsmanni sínum að semja um. Auk þess voru Denver, Boston, Charlotte og Miami öll að reyna að fá Wells í sínar raðir, en hann kemur til með að styrkja lið Houston verulega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×