Innlent

Óttast að Framsóknarmenn komi í veg fyrir þingsetu

Svo gæti farið að varaþingmaður, sem sagði sig úr Framsóknarflokknum, taki sæti á þingi á næstunni. Hann óttast þó að flokkurinn reyni að koma í veg fyrir það.

Jóhann M. Hauksson, stjórnmálafræðingur, var í sjötta sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í síðustu Alþingiskosningum en hann sagði sig úr flokknum eftir kosningarnar.

Tveir Framsóknarmenn náðu kjöri í kjördæminu, þeir Halldór Ásgrímsson og Árni Magnússon, þeir hafa báðir látið af þingmennsku og varamenn tekið þeirra sæti.

Á heimasíðu sinni segir Jóhann frá því að haft hafi verið samband við hann frá Framsóknarflokknum og hann beðinn um ganga aftur í flokkinn. Ástæðan væri sú að vegna fjarveru þingmanna séu líkur á að hann þurfi að fylla í þeirra skarð á þingi. Hann hafi hins vegar lýst því yfir að hann hefði engan áhuga á að ganga aftur í Framsóknarflokkinn en hann bregðist ekki skyldum sínum ef til þess komi að hann verði kallaður á þing.

Jóhann segir að stuttu síðar hafi hann fengið samtal frá fyrrum félaga sínum í flokknum. Sá hafi reynt að sannfæra hann um að taka ekki sæti á Alþingi, ef til þess kæmi, heldur forfallast. Jóhann svarað honum og sagði að hann hefði engan hug á því. Þessi fyrrverandi félagi hans hafi hins vegar ekki verið eins kurteis og konan sem hann talaði við fyrr um daginn.

Á heimasíðu sinni segist Jóhann ekkert hafa heyrt meira um málið en hann telji að reynt verði að koma hlutunum þannig fyrir að ekki komi til þess að hann þurfi að taka sæti á þingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×