Innlent

Kallar eftir strangari reglum um merkingar á framkvæmdum

Maður lést í bílslysi á Reykjanesbraut í gærkvöldi en vegaframkvæmdir standa yfir þar sem slysið átti sér stað. Umferðarstofa gagnrýnir að merkingar á slystað hafi ekki verið í samræmi við reglur. Þetta sé vandamál víða þar sem framkvæmdir eru á vegum og götum. Kallar umferðarstofa eftir strangari reglum og harðari eftirliti með að þeim sé fylgt.

Slysið varð með þeim hætti að bíll skall á steypuklump sem komið hafði verið fyrir á veginum til þess að stýra umferð á meðan framkvæmdir standa þar yfir. Maðurinn, sem var farþegi í bílnum, var látinn þegar lögregla og sjúkralið kom á vettvang.

Ljóst er að merkingum var mjög ábótavant í þessu tilviki en Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu, segir að mjög skýrar reglur gildi um hvernig á að haga merkingum við framkvæmdir. Reglunum sé hins vegar ekki fylgt eftir og eftirliti sé greinilega ábótavant. Einar segir að bæði lögreglan og Vegagerðin sinni eftirliti af þessu tagi og spyrja verði þessa aðila af hverju eftirfylgni er ekki meiri.

Einar tekur fram að þegar Umferðarstofu berist ábendingar um ófullnægjandi merkingar í þéttbýli, sé haft samband við lögreglu en Vegagerðin látin vita í dreifbýli. Hann segir að Umferðarstofu berist fjöldinn allur af ábendingum. Einar segir að víða megi finna dæmi um óviðunandi merkingar nálægt umferð eins og t.d á Sundabraut og við Kalkofnsveg í Reykjavík. Ólíðandi sé að ekkert sé aðhafst í þessum málum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×