Skoðun

Fjölga þarf störfum á Vestfjörðum

Undirritaður setti fram tillögu í ársbyrjun 2003, um að náttúruverndar­sinnar sem vildu að hætt yrði við Kárahnjúka og álver eystra, kæmu vestur og sköpuðu þar þau 700 störf sem þeir sögðust skapa fyrir austan ef hætt yrði við framkvæmdir þar. Ekki hefur bólað á þeim störfum enn þá. Sú viðleitni hefur þó verið sýnd að benda bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar á að undirbúa hvalaskoðun vestra.

Í framhaldi af tillögunni ákváðu sveitarfélög á Vestfjörðum að undirbúa skilgreiningu á Vestfjörðum sem svæði er byggði á sjálfbærri þróun og talað var um stóriðjulausa Vestfirði. Á þessum fjórum árum hefur okkur hins vegar ekki tekist að fjölga störfum það mikið að tekist hafi að snúa búsetuþróuninni við.

Þegar hugmyndir um olíuhreinsunarstöð voru settar fram voru fyrstu viðbrögð undirritaðs að þetta gæti ekki passað inn í okkar umhverfi og atvinnulíf fyrir vestan enda starfsemin risavaxin. Við nánari athugun og eftir að hafa skoðað olíuhreinsunarstöðvar þá er ég þeirrar skoðunar að svona starfsemi eigi að komast fyrir í okkar landshluta enda hefur olíuhreinsunarstöð fyrst og fremst áhrif á sitt nánasta umhverfi en breytir ekki ímynd annarra svæða og Vestfjarða í heild.

Umhverfisverndarsinnar hafa áhyggjur af mengun frá olíuhreinsunarstöðvum. Það er eðlilegt. Þó verður að hafa í huga að olíuhreinsunsarstöðvar menga ekki meira en sem nemur magni eldsneytis sem notað er í heiminum. Til að draga úr mengun þarf að minnka notkunina sem ræður því hver þörfin fyrir olíuhreinsunarstöðvar er.

Iðnaðarráðherra sagði frá því í fjölmiðlum á dögunum að ríkisstjórn Íslands hefði aukið fjárframlag til olíuleitar í íslenskri lögsögu. Einnig að ef olía fyndist yrði það mikil búbót fyrir Ísland. Ef Íslendingar finna olíu þá hljóta þeir að ætla að vinna hana líka. Þá er gott að eiga olíuhreinsunarstöð sem getur tekið við olíunni sem ríkisstjórnin lætur nú leita að.

Höfundur er bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.






Skoðun

Sjá meira


×