Skútan sem ferjaði rúmlega 60 kílógrömm af fíkniefnum frá Noregi til Fáskrúðsfjarðar var flutt í flugskýli á Keflavíkurflugvelli til nákvæmrar rannsóknar á fimmtudagskvöld. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði rannsóknina enn sem komið er ekki hafa leitt neitt nýtt í ljós.
Kafarar á vegum sérsveitar lögreglunnar skoðuðu skipið að utan og hafsbotninn í kring strax á fimmtudag, en fundu ekkert markvert.
Átta manns eru í haldi lögreglu í þremur löndum vegna málsins, en engar nýjar handtökur hafa átt sér stað. Enginn hefur verið leystur úr haldi, en yfirheyrslur eru stutt á veg komnar. Formleg skýrslutaka er ekki hafin að fullu sakir þess að einn verjenda í málinu er erlendis.
Stefán segir ekki tímabært að segja til um hvort framsals verði krafist á þeim þremur sem handteknir voru erlendis. Tveir voru handteknir í Færeyjum, annar þeirra Íslendingur, en hinn Dani.
Einn Íslendingur, Logi Freyr Einarsson, var handtekinn í Noregi, en hann er talinn vera einn skipuleggjenda smygltilraunarinnar. Hinir eru bróðir hans Einar Jökull Einarsson og Bjarni Hrafnkelsson, sem báðir voru handteknir á heimilum sínum á höfuðborgarsvæðinu. Báðir hafa komið áður við sögu lögreglu. Einar Jökull hefur dvalið í Tékklandi og var eftirlýstur af tékknesku lögreglunni eins og kom fram á vefsíðu hennar.
