Að minnsta kosti 85 eru látnir eftir fjölda árása í Bagdad í Írak í dag. Um 60 manns eru sagðir hafa látist í sjálfsmorðsárás tveggja manna við háskóla í austurhluta borgarinnar og þar særðust yfir hundrað manns.
Í hópi hinna látnu voru fjölmargir stúdentar sem biðu þess að þeir yrðu fluttir heim í smárútum og bílum. Þá létust fimmtán í tveimur sprengingum á markaði í miðborg Bagdad í morgun og tugir særðust. Enn fremur hófu byssumenn skothríð á búðareigendur í norðurhluta borgarinnar og þar létust að minnsta kosti tíu.
Blóðbaðið í borginni virðist því síður en svo á enda en fyrr í dag greindu Sameinuðu þjóðirnar frá því að yfir 34 þúsund manns hefðu látist og yfir 36 þúsund særst í ofbeldisverkum í landinu í fyrra.