Bandaríkin hafa staðfest að þau muni sækja ráðstefnu sem stjórnvöld í Írak ætla sér að halda í Apríl. Á henni verða meðal annars fulltrúar frá Íran og Sýrlandi ásamt fulltrúum átta ríkustu þjóða heims.
Á fundinum á að leita leiða til þess að bæta ástandið í Írak og draga úr spennunni á svæðinu í kring. Bandaríkin hafa undanfarið deilt hart á Írana og Sýrlendinga og sakað þá um að styðja við bakið á uppreisnarmönnum í Írak. Bandaríkin hafa áður hafnað viðræðum með Írönum og Sýrlendingum.
Fundurinn myndi verða ráðherrafundur og yrði í framhaldi af viðræðum starfsmanna í utanríkisþjónustum landanna sem eiga að fara fram í Bagdad í marsmánuði. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að Írakar færu alfarið með stjórn mála á fundinum sem væri að þeirra frumkvæði.
Töluverð pressa hefur þó verið á stjórn George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, að hefja viðræður sem Íran og Sýrland eiga aðild að. Skýrsla vinnuhóps sem greindi ástandið í Írak lagði það til en Bush ákvað að taka ekki mark á þeim tillögum. Ákvörðun Bandaríkjanna um að taka þátt í fundinum þykir því bera merki um að afstaða þeirra til Írans sé að breytast.
Bandaríkin ætla að sitja ráðstefnu Íraka
