Vel á annað hundrað mótmælendur frá ýmsum löndum voru handteknir í óeirðum á götum Norðurbrúar í Kaupmannahöfn í nótt. Óeirðasamt hefur verið í þessum borgarhluta síðan á fimmtudaginn þegar lögregla rýmdi æskulýðsmiðstöð á svæðinu með valdi. Að minnsta kosti einn mótmælandi slasaðist í atganginum í nótt.
Friðsamleg mótmæli hófust í gærkvöldi á Sánkti Hans torgi en þau snerust upp í óeirðir skömmu eftir miðnætti. Vitni segja lögreglu hafa notað táragas til að dreifa mannfjöldanum og mótmælendur svarað með eldsprengjum og grjóthnullungum. Kveikt var í bílum, þar á meðal einum lögreglubíl.
Óeirðaseggir létu einnig til skarar skríða í Kristjánshöfn nærri Kristjaníu. Þeir réðust inn í framhaldsskóla þar og brutu þar allt og brömluðu.
Mótmælendur hafa hótað aðgerðum víða um Kaupmannahöfn í dag.