Handbolti

Stjarnan í deildarbikarinn

Patrekur Jóhannesson
Patrekur Jóhannesson Mynd/Vilhelm
Handbolti Stjarnan úr Garðabæ tryggði sér í gær fjórða sæti DHL-deildar karla þegar liðið lagði Akureyri, 35-31, í hreinum úrslitaleik um síðasta sætið sem tryggir sæti í deildarbikarnum að lokinni deildarkeppninni.

Sigur Stjörnunnar var mun öruggari en tölurnar gefa til kynna en liðið var sjö mörkum yfir í hálfleik, 19-12, og náði Akureyri aldrei að ógna forskoti Stjörnunnar að neinu viti í seinni hálfleik. Munurinn á liðunum lá fyrst og fremst í markvörslunni en Roland Valur Eradze varði 19 skot á móti 5 skotum markvarða Akureyrar.

Patrekur Jóhannesson átti stórleik í vörn Stjörnunnar og var mjög sáttur við að hafa lengt tímabilið um minnst tvo leiki.

„Þessi leikur var upp á líf og dauða og það hefði verið leiðinlegt ef við hefðum ekki náð að tryggja okkur sæti í þessari úrslitakeppni, við höfum farið illa með fjölmörg tækifæri til þess að undanförnu."

Patrekur fann sig að lokum knúinn til að tjá sig örlítum um afspyrnuslaka dómara leiksins þá Valgeir Egil Ómarsson og Þorlák Kjartansson. „Mér finnst íslenskir dómarar hafa full mikla tilhneigingu til að vilja vera í aðalhlutverki þegar bestu dómararnir líkt og maður sér í þýska handboltanum á Sýn eru nánast ósýnilegir. Menn verða að láta boltann rúlla betur. Maður veit varla hverjir dæma þegar bestu dómararnir í Þýskalandi dæma en ég veit hverjir dæmdu hér í dag."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×