Körfubolti

Fastir liðir hjá San Antonio - Denver úr leik

Gleðilegt sumar. Tim Duncan hjá San Antonio faðmar Allen Iverson hjá Denver eftir leikinn í nótt
Gleðilegt sumar. Tim Duncan hjá San Antonio faðmar Allen Iverson hjá Denver eftir leikinn í nótt NordicPhotos/GettyImages

San Antonio Spurs er komið í aðra umferð úrslitakeppninnar í NBA eftir öruggan 93-78 sigur á Denver Nuggets í fimmta leik liðanna í nótt. Michael Finley var hetja San Antonio í þetta skiptið og setti félagsmet með 8 þriggja stiga körfum úr 9 tilraunum. San Antonio vann einvígið 4-1 og mætir sigurvegaranum úr einvígi Phoenix og LA Lakers.

Nokkurt jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleiknum, en heimamenn skelltu í lás í vörninni í þeim síðari og héldu Denver í aðeins 30 stigum eftir hlé. Denver skoraði ekki yfir 100 stig í einum einasta leik í einvíginu eftir að ná þeim áfanga í 56 leikjum í deildarkeppninni. Denver vann aðeins 2 af 25 leikjum sínum í deildarkeppninni þar sem liðið náði ekki að skora 100 stig.

Michael Finley var atkvæðamestur hjá San Antonio í leiknum og skoraði 26 stig, þar af 8 þrista úr 9 tilraunum, sem er félagsmet. Tim Duncan skoraði 23 stig og hirti 12 fráköst og Tony Parker skoraði 16 stig og gaf 10 stoðsendingar.

"Ég var í ágætis stuði í kvöld og sem betur fer náði ég að setja niður þessi skot mín. Denver-menn komu ákveðnir til leiks í kvöld en við vorum einbeittir allar 48 mínúturnar og það gerði gæfumuninn. Við þurfum bara að halda okkur við það sem við gerum best og þá munum við standa okkur ágætlega í úrslitakeppninni," sagði Finley.

Carmelo Anthony og Allen Iverson skoruðu 21 stig hvor fyrir Denver í leiknum, en Iverson hitti aðeins úr 6 af 22 skotum sínum utan af velli. Steve Blake skoraði 12 stig og Marcus Camby hirti 19 fráköst.

Denver vann fyrsta leikinn í einvíginu á heimavelli San Antonio, en síðan ekki söguna meir. Þetta einvígi var því spegilmynd af rimmu liðanna í fyrstu umferðinni árið 2005. Þá kom Denver-liðið inn í 8. sæti úrslitakeppninnar á góðu skriði og virtist ætla að stríða reyndu liði San Antonio eftir sigur á útivelli í fyrsta leik. Liðið tapaði hinsvegar næstu fjórum leikjunum og byrjar því sumarfríið í San Antonio núna líkt og fyrir tveimur árum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×