Fjórir menn hafa verið handteknir vegna morðsins á hinni 17 ára gömlu Dú'u Khalil Aswad sem var grýtt í hel í norðurhluta Íraks í byrjun apríl. Ástæðan fyrir morðinu var sú að Dú'a hafði orðið ástfangin af pilti af öðrum trúflokki. Dú'a tilheyrði trúflokknum Yezidi. Þeir tala kúrdisku en líta ekki á sig sem Kúrda. Þegar múgur hóf að leita hennar leitaði hún hælis hjá trúarleiðtoga. Þaðan var hún dregin út á götu.
Mikill fjöldi manna tók þar þátt í að murka úr henni lífið með því að berja hana og grýta hana svo með stórum steinhnullingum. Á myndbandsupptökum af morðinu má sá stúlkuna reyna, grátandi og blóðug að komast undan og biðjast miskunnar.
En miskunn var enga að hafa og það mátti heyra dynkina þegar hnullungarnir skullu á líkama hennar og hún veinaði af sársauka. Loks hneig hún niður og það var haldið áfram að grýta hana þartil hún lést.
Myndir af morðinu voru settar á netið og fóru sem eldur í sinu um heimsbyggðina. Talið er að það hafi ýtt við Íröskum yfirvöldum, sem hófu síðbúna rannsókn. CNN fréttastofan segir að tveir hinna handteknu séu nánir ættingjar stúlkunnar.