Körfubolti

NBA: Undanúrslitin hefjast í nótt

Einvígi Carlos Boozer og Tim Duncan á eftir að vekja mikla athygli í leikjum Utah og San Antonio.
Einvígi Carlos Boozer og Tim Duncan á eftir að vekja mikla athygli í leikjum Utah og San Antonio. MYND/Getty

Úrslitin í Vesturdeild NBA-deildarinnar hefjast í kvöld þegar San Antonio fær Utah í heimsókn. Sigurvegarinn í rimmu liðanna fer í úrslit deildarinnar þar sem mótherjarnir verða annaðhvort Cleveland eða Detroit. Utah hefur ekki unnið í San Antonio síðan árið 1999 en í leikjum liðanna á núverandi leiktíð skiptu þau sigrunum á milli sín.

“Liðið gerir varla mistök í leik sínum. Þeir hafa frábæran þjálfara og spila frábæran körfubolta. Þeir búa yfir öllum pakkanum og komast næst því að vera hið fullkomna lið,” segir Jerry Sloan, þjálfari Utah, og sparar ekki hrósið í garð mótherja sinna í undanúrslitunum, San Antonio.

Það var árið 1998 sem liðin áttust síðast við í úrslitum Vesturdeildarinnar en þá var það Utah sem fór með sigur af hólmi, áður en liðið tapaði fyrir Micheal Jordan og félögum í Chicago í sjálfum úrslitunum. Frá árinu 1999 hefur Utah hins vegar aldrei sigrað í San Antonio og á þessu tímabili spiluðu liðin fjóra leiki – unnu tvo leiki hvort á sínum heimavelli.

“Við förum inn í þetta einvígi með það markmið að snúa við sögunni. Við vitum að samkvæmt tölfræðinni eigum við ekki möguleika en vonandi náum við að afsanna þessa tölfræði,” segir Carlos Boozer, einn besti leikmaður Utah.

Boozer segir að lykillinn að sigri Utah í einvíginu sé að stöðva Tim Duncan, framherja San Antonio. “Hann er ótrúlega hæfileikaríkur, bæði í vörn og sókn. Hann kann allar hreyfingarnar og það er nánast ómögulegt að stöðva hann. Það verður mikil áskorun fyrir mig og liðið að reyna að halda aftur af Duncan.”

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×