Körfubolti

Kobe Bryant: Náið í West eða ég er farinn

Kobe Bryant er orðinn leiður á meðalmennskunni í Los Angeles
Kobe Bryant er orðinn leiður á meðalmennskunni í Los Angeles NordicPhotos/GettyImages

Kobe Bryant gaf út sterka yfirlýsingu í samtali við ESPN sjónvarpsstöðina í gær þegar hann var spurður út í framtíð sína með liði LA Lakers. Vitað var að Bryant var orðinn leiður á að sjá lið Lakers drattast í meðalmennsku og nú virðist sem mælirinn sé fullur hjá leikmanninum.

Bryant fór þess á leit við forráðamenn félagsins eftir að liðið tapaði fyrir Phoenix í fyrstu umferð úrslitakeppninnar að þeir leituðust við að styrkja liðið og það í hvelli. Nú vill Bryant að félagið ráði goðsögnina Jerry West aftur til starfa í stöðu framkvæmdastjóra - ella muni hann leita eftir því að fara annað.

Undir stjórn West vann lið Lakers fjölda meistaratitla á sínum tíma, en hann var m.a. maðurinn sem fékk Bryant og Shaquille O´Neal til félagsins og byggði í kring um þá lið sem vann deildina þrjú ár í röð í upphafi áratugarins. West er við það að klára samning sinn sem framkvæmdastjóri Memphis Grizzlies og ekki er gert ráð fyrir því að hann haldi þar áfram störfum.

"Ég er orðinn þreyttur á því að við skulum ekki vera með samkeppnishæft lið og ég hef lengi beðið eftir því að menn geri eitthvað í því. Þetta er gremjulegt fyrir mig og gremjulegt fyrir alla stuðningsmenn félagsins. Ég er að bíða eftir því að menn geri breytingar til góðs," sagði Kobe Bryant. Nú er bara að bíða og sjá hvernig þessi ummæli fara í Mitch Kupchack, núverandi framkvæmdastjóra Lakers.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×