Foreldrar bresku stúlkunnar Madeleine McCann hitta í dag Benedikt sextánda páfa í vikulegri áheyrn páfans í Vatíkaninu. Með fundinum er ætlunin að vekja athygli á leitinni að Madeleine litlu sem hefur verið saknað frá 3. maí þegar henni var rænt af hóteli foreldranna á Praia da Luz í Portúgal.
Reiknað er með að páfinn ræði við foreldrana og þau gefi honum mynd af dóttur sinni og búist er við því að hann minnist á stúlkuna í bænum sínum á tröppum Sankti Péturs kirkjunnar í Vatíkaninu. Foreldrarnir hyggjast svo á næstu dögum heimsækja meðal annars Spán, Þýskaland og Marokkó til þess að vekja athygli á leitinni.
Portúgölsku lögreglunni hefur orðið lítið ágengt í leitinni að Madeleine litlu þrátt fyrir að hafa fengið hundruð símatala eftir að hún lýsti eftir manni sem sást nærri hóteli McCann-fjölskyldunnar. Það hefur reyndar komið í ljós kom að lýsingin á manninum reyndist að hluta til röng í enskri þýðingu á fréttatilkynningu portúgölsku lögreglunnar.
Foreldrar Madeleine á fund páfa í dag
