Gordon Brown boðaði breytingar og nýja forgangsröðun þegar hann tók við embætti forsætisráðherra Bretlands í dag. Þingmenn allra flokka á breska þinginu hylltu Tony Blair eftir að hann flutti síðasta ávarp sitt á þinginu í morgun. Síðdegis sagði Blair af sér þingmennsku en hann tekur við embætti sérstaks erindreka fjórveldanna svo kölluðu í friðarviðræðum fyrir botni Miðjarðarhafs.
Flutningabílar voru komnir að dvalarstað forsætisráðherra í Downing-stræti tíu snemma í morgun. Rýma þurfti fyrir Brown og hans fjölskyldu. Á ellefta tímanum gekk svo Blair út úr ráðherrabústaðnum og hélt í þinghúsið þar sem hann svaraði spurningum þingmanna í síðasta sinn.
Þar var tekist á um ýmis mál en í tilefni dagsins var Blair þó ekki meðhöndlaður alveg af sömu hörku og fyrr. David Cameron, leiðtogi Íhaldsmanna lauk lofsorði á Blair og sagði afrek að gegna embætti forsætisráðherra í tíu ár. Margt hefði hann auk þess afrekað - eins og að tryggja frið á Norður-Írlandi. Fyrir hönd sín og flokksins óskaði hann Blair og fjölskyldu hans velfarnaðar í hverju því sem þau tækju sér fyrir hendur í framtíðinni.
Blair þakkaði þessi vinsamlegu orð og óskaði Cameron velfarnaðar á öllum sviðum nema því pólitíska. Forsætisráðherrann fyrrverandi sagðist frá fyrsta degi hafa fengið hnút í magann áður en hann gekk á fund þingmanna í fyrirspurnartímum og engin undantekning hafi verið á því í dag. Að lokum óskaði hann vinum sem og óvinum velfarnaðar og sagði starfi sínu sem forsætisráðherra þar með lokið.
Þingmenn Verkamannaflokksins klöppuðu Blair þá lof í lófa og Cameron skipaði öllum Íhaldsmönnum að standa á fætur og hylla hann einnig. Stjórnmálaskýrendur í Bretlandi segja þetta hafa verið sögulega stund - ekki hafi fráfarandi forsætisráðherra verið hylltur jafn innilega fyrr.
Frá þinghúsinu hélt Blair í Buckingham-höll þar sem hann greindi Elísabetu annari Englandsdrottningu frá afsögn sinni. Gordon Brown, fjármálaráðherra, kom í höllina fljótlega eftir að Blair gekk af fundi drottningar og og varð við ósk hennar um að mynda nýja ríkisstjórn. Eftir óvenju langan fund með drottningu hélt nýji forsætisráðherrann í Downing-stræti tíu ásamt eiginkonu sinni, Söruh Macauley. Þar ávarpaði hann fjölmiðla í fyrsta sinn sem forsætisráðherra.
Brown sagði þetta nýja stjórn sem myndi setja ný mál í forgang. Honum hefði verið veittur sá heiður að þjóna landi sínu. Hann sagði breytinga þörf í heilbrigðis- og menntakerfinu. Brown ætlar að tryggja þeim þak yfir höfuðið sem ekki hafi haft ráð á því hingað til og um leið auka tiltrú almennings á stjórnmálamönnum.
Síðdegis sagði svo Tony Blair af sér þingmennsku en það er þó ekki sjálfgefið í breskum stjórnmálum. Bæði Margaret Thatcher og John Major, fyrrverandi forsætisráðherrar Íhaldsflokksins, sátu bæði um tíma á þingi eftir að valdatíma þeirra lauk. Blair verður sérstakur erindreki fjórveldanna svo kölluðu, Bandaríkjanna, Evrópusambandsins, Sameinuðu þjóðanna og Rússlands, sem reyna að miðla málum fyrir botni Miðjarðarhafs.