Þeir sem voru ræstir út eftir hádegi í karlaflokki á fyrsta hring á Íslandsmótinu á Hvaleyrinni hafa ekki verið að ógna skori þeirra bestu sem kláruðu hringinn fyrr í dag. Ástæðan fyrir því er að hluta til sú að nokkur vindur hefur verið á vellinum eftir hádegi, en þeir sem fóru út í morgun fengu logn eða hæga norðan golu.
Þrír deila efsta sæti í karlaflokki, þeir Björgvin Sigurbergsson úr GK, Jóhannes Kristján Ármannsson úr GB og Örn Ævar Hjartarson úr GS, sem léku hringinn á 68 höggum, eða 3 höggum undir pari.
Kristján Þór Einarsson úr GKj og Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG deila fjórða sæti á 69 höggum og síðan kemur Björn Þór Hilmarsson úr GR á 70 höggum. Davíð Jónsson úr GS lék á 71 höggi, eða pari.
Heiðar Davíð Bragason úr GKj lék á einu höggi yfir pari vallar eins og þeir Arnór Ingi Finnbjörnsson úr GR, Björn Þór Arnarson úr GO, Ólafur Már Sigurðsson úr GR og Sigurþór Jónsson úr GK.